Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 174 . mál.


Nd.

709. Nefndarálit



um frv. til l. um grunnskóla.

Frá meiri hl. menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið um það umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Skólamálaráði Reykjavíkur, fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra, Hinu íslenska kennarafélagi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fræðslustjóra Reykjanesumdæmis, kennslumálanefnd Háskóla Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, fræðslustjóra Austurlandsumdæmis, Samtökum fámennra skóla, Félagi skólasafnskennara, Bandalagi kennara Norðurlandi eystra, Félagi íslenskra skólasálfræðinga, fræðslustjóra Vestfjarðaumdæmis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, fræðslustjóra Reykjavíkurumdæmis, og Kennarasambandi Íslands. Þá komu á fund nefndarinnar til viðræðna um frumvarpið Gerður G. Óskarsdóttir, ráðgjafi menntamálaráðherra í skóla- og uppeldismálum, Hrólfur Kjartansson, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, Ólafur Darri Andrason, deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, og Árni Sigfússon, varaformaður skólamálaráðs Reykjavíkur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     Við 4. gr. Lagt er til að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma. Flestum ber saman um nauðsyn þess að börn og unglingar eigi greiðan aðgang að hollri fæðu í grunnskólum. Vegna breyttra aðstæðna á heimilum og í atvinnulífinu verða skólar að einhverju marki að taka á sig þennan hluta umönnunar barna.
     Við 12., 13. og 15. gr. Mjög skiptar skoðanir virðast vera um stöðu og hlutverk fræðsluráða. Með breytingartillögum við þessar greinar eru ákvæði um fræðsluráð í samræmi við 30. og 31. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og jafnframt komið til móts við athugasemdir umsagnaraðila, einkum sveitarstjórnarmanna. Með því að bæta við heimildarákvæði um skólaráð í fræðsluumdæmum er að hluta haldið inni þeim samráðum um skólamál, bæði varðandi aðbúnað og innra starf, sem frumvarpið gerði ráð fyrir að fræðsluráð annaðist.
     Við 24. gr. Breytt er viðmiðunarreglum um skiptingu kostnaðar við byggingu og rekstur grunnskóla í þeim tilvikum sem tvö eða fleiri sveitarfélög eiga með sér félag um slíkt. Þá er það breyting að skipting kostnaðar felur bæði í sér stofnkostnað og rekstur, en frumvarpið kvað einungis á um stofnkostnað.
     Við 25. og 26. gr. Nauðsynlegt þykir að fram komi í lagatextanum að aðstaða sú sem veitt er til heilsugæslu í skólum sé til að uppfylla ákvæði 19. gr. laga nr 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, og því skuli jafnframt fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins vera með í ráðum við hönnum skólamannavirkja.
     Við 71. gr. Í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu er notað orðið heilsugæsla í stað orðsins „heilsuvernd“.
     Við 76. gr. Í fámennum byggðarlögum eru gjarnan miklar sveiflur í fjölda nemenda í árgangi. Í 3. mgr. 75. gr. frumvarpsins er kveðið á um að til þess að 9. og 10. bekk grunnskóla verði haldið uppi í skólahverfi megi nemendur í þessum deildum þó eigi vera færri en 12 að meðaltali nema að fenginni heimild menntamálaráðuneytisins. Undanþáguheimild ráðuneytisins er í anda þeirrar stefnu að nemendur geti stundað skyldunám í heimabyggð. Miklar sveiflur í nemendafjölda kalla hins vegar á sveigjanlegar reglur um úthlutun kennslukvóta þegar þannig háttar til. Þykir rétt að kveða á um að ráðuneytið setji þær á sama hátt og reglur um skiptitíma og valgreinar.
     Við ákvæði til bráðabirgða. Fyrri breytingin varðar málsverði á skólatíma sem gert er ráð fyrir að kveðið verði á um í 4. gr. Breytingin er gerð til að tryggja ákveðinn undirbúning þess að nemendum verði nú séð fyrir málsverði á skólatíma. Síðari breytingin varðar sérskóla fyrir fötluð börn. Á meðan það millibilsástand varir að þessir sérskólar eru ekki orðnir hluti af almenna grunnskólanum er nauðsynlegt að setja bráðabirgðaákvæði um skólana og tryggja rekstri þeirra þannig lagastoð.

Alþingi, 20. febr. 1991.



Ragnar Arnalds,


form., frsm.

Ólafur Þ. Þórðarson.

Árni Gunnarsson,


með fyrirvara.


Guðmundur G. Þórarinsson.